Innantóm loforð íslenskra stjórnmálamanna
13.5.2010 | 13:32
Heilbrigðisráðherra mun hafa lofað Blönduósingum að skoða sérstaklega mál Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi. Stofnunin þarf, af einhverjum óskiljanlegum orsökum að sæta meiri niðurskurði heldur en flestar aðrar heilbrigðisstofnanir. Niðurskurðurinn er þó gríðarlegur víða annars staðar en sýnu meiri hjá Húnvetningum. Það er e.t.v. vegna þess að heilbrigðisráðuneytið telur Húnvetninga heilsuhraustari en gengur og gerist eða að heilsa þeirra, líf og limir, er talin minni virði en annarra Íslendinga. Annað hvort er það.
Heilbrigðisráðherra hefur uppi innantóm loforð um að málið verði skoðað. Það virðist ekki hafa verið gert. Eða kannski ráðherrann hafi einfaldlega gleymt þessum mótmælendum fyrir norðan sem hún talaði til? Það er reyndar ekkert nýtt að íslenskir stjórnmálamenn standi ekki við það sem þeir segja eða "gleymi" loforðum sínum og auðvitað alls ekki ef um er að ræða tiltölulega fá "atkvæði" eins og í Húnaþingi. Það vekur alltaf mun meiri athygli ef stjórnmálamenn standa við orð sín.
Það er ekki hægt að una við það að lítil heilbrigðisstofnun úti á landi þurfi að sæta blóðugri niðurskurði en aðrar sambærilegar stofnanir. Mismunun skal leiðrétta. Þess vegna standa nokkrir dugmiklir mótmælendur á Blönduósi upp enda er þeim misboðið. Ráðherrann hefur gefið sig út fyrir að ranglæti skuli leiðrétta. Hún og ráðuneyti hennar hefur gott tækifæri að sýna það í verki og leiðrétta þessa fáránlegu og ósanngjörnu mismunun sem Húnvetningar þurfa að búa við í heilbrigðismálum.
Minna Álfheiði á heilsugæsluna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:06 | Facebook
Athugasemdir
Ég hygg að stefna ráðuneytisins sé að Sauðárkrókur verði miðpunktur heilbrigðisþjónustu í A-Hún og Skagafjarðarsýslum, en auðvitað segir engin það upphátt.
Ég held að ráðherrar sem fara ekki ótilneyddir út úr Rvík 101, hafi engan skilning á því að þótt "aðeins" 50 km séu á milli staðana þá skilur himin og haf þessa tvo staði að þegar vetrarveður eru í sínum versta ham.
Þó aðeins séu 23 km á milli Skagastrandar og Blönduóss og það taki ekki nema korter að renna þetta á góðum degi, þá hefur þessi spotti breyst í margra klukkutíma ferðalag þegar vetrarveður eru í ham, ef það er þá yfir höfuð fært. Það þekkja þeir einir sem reynt hafa.
Skagstrendingar hafa áratugum saman gert þá kröfu að einn af læknunum á Heilbrigðisstofnunni á Blönduósi hefði búsetu á Skagaströnd, en ekki haft erindi sem erfiði.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 13.5.2010 kl. 14:05
Tek undir allt sem þú segir Axel.
Guðmundur St Ragnarsson, 13.5.2010 kl. 15:38
Talandi um það að krefjast búsetu lækna í bæjum og þorpum sem þeir þjónusta, hef ég fyrir satt að aðeins 1 eða í mesta lagi 2 heilsugæslulæknar séu búsettir í Reykjanesbæ þar sem búa um 12.000 manns. Og ekki höfum við farið varhluta af niðurskurði í heilbrigðismálum, t.d. var verið að loka fullkominni skurðstofu um síðustu mánaðamót með tilheyrandi uppsögnum sérþjálfaðs starfsfólks. Og ekki má á það minnast að leigja þessa fullkomnu aðstöðu út til einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja og með því tryggja betur rekstur stofnunarinnar í heild.
Gísli Sigurðsson, 13.5.2010 kl. 17:15
Takk fyrir þetta Gísli. Heilbrigðisráðuneytinu virðst einhverra hluta vegna vera sérstaklega í nöp við Húnavatnssýslu eystri og Reykjanesbæ. Mér finnst alveg ótrúlegt þetta með að loka þessari skurðstofu þarna fyrir sunnan mitt í slæmu atvinnuástandi á Reykjanesi þar mem atvinnuleysi mælist hvað hæst. Einhvern veginn grunar mann að á endanum sparist ekki svo miklir fjármuni þegar á allt er litið.
Guðmundur St Ragnarsson, 13.5.2010 kl. 18:04
Ég er hjartanlega sammála þér Muggi minn. Öllu fögru er lofað fyrir kosningar en svo er ekkert aðhafst frekar. Flott blogg hjá þér vinur. Eigðu góðan dag vinur minn.
Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 14.5.2010 kl. 20:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.