Það er loftið í þeim Þingeyingum!

Til hamingu með daginn, bræður og systur!

Aðalsteinn Baldursson, verkalýðsforingi á Húsavík flutti 1. maí hátíðarræðu á Húsavík í dag. Ræðan fjallaði að mestu um kreppuna og ástandið í þjóðfélaginu í dag, útrásarvíkinga, siðferðisbrest o.fl. Það er rétt sem hann sagði um að ekki verði teknar óhugsaðar skyndilausnir. Það sé forgangsverkefni sé að koma bankakerfinu í gang svo hjól atvinnulífsins fari að snúast á ný. Þá þarf að stada vörð um heimilin. Um þetta eru allir sammála.

Um umræðuna um inngöngu í ESB sagði verkalýðsforinginn þetta: "Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég skil ekki alveg umræðuna um inngöngu Íslands í Evrópusambandið á sama tíma og við erum með allt niður um okkur og höfum mörg verk að vinna. Ég tel umræðuna vera á lágu plani og tel því ekki tímabært að sækja um inngöngu.

Það er engin syndaaflausn fólgin í því að ganga í Evrópusambandið miðað við okkar stöðu í dag. Við höfum verið á fjárfestingarfylliríi síðustu ár og erum ekki í neinni samningsstöðu til að fara í viðræður við Evrópusambandið um aðild að sambandinu. Fyrst þurfum við að láta renna af okkur, fara í meðferð og ná jafnvægi svo við höfum einhverja samningsstöðu. Ekki er ólíklegt að þetta verði eitt mesta hitamálið í íslenskri pólitík á næstu árum.

Hugsanlega er það leið til sátta meðal þjóðarinnar eftir að við höfum náð jafnvægi í ríkisfjármálum að menn hefji viðræður við Evrópusambandið um hugsanlega aðild. Kalli fram sáttmála sem síðan verði lagður í dóm kjósenda þannig að menn geti tekið lýðræðislega afstöðu til málsins. Fyrr getum við það ekki."

Ég er hjartanlega sammála verkalýðsforingjanum þarna. Ég vona að orð hans nái eyrum Árna Árnsonar þingmanns Samfylkingarinnar sem vill óður og uppvægur að sækja um aðild. Fái Árni ráðið munu Íslendingar mæta strax í næstu viku að samningaborðinu með buxurnar á hælunum. Samningurinn gæti hljóðað upp á það að við fengjum að toga buxurnar upp til hálfs. Annars tel ég skynsamlegast að vera ekkert að sækja um aðild.

Aðalsteinn sagðist í ræðu sinni og treysta ríkisstjórninni en þar erum við gjörsamlega ósammála. Því miður er ríkisstjórnin að horfa í gaupnir sér á meðan ástandið í þjóðfélaginu versnar daglega. Engar viðeigandi og varanlegar lausnir virðast í sjónmáli.

EN ÞAÐ VAR ÞETTA Í RÆÐU AÐALSTEINS SEM MÉR FANNST ATHYGLISVERÐAST:

"Við Þingeyingar höfum lengi verið framsýnir í atvinnumálum og menningu. Við stofnuðum t.d. fyrsta kaupfélagið á sínum tíma og fórum að flytja inn vörur. Þar á meðal bókmenntir og fljótlega urðu Þingeyingar betur lesnir og fróðari um flesta hluti en aðrir Íslendingar. Jákvæð öfund skapaðist hjá öðrum landsmönnum í garð Þingeyinga sem fóru að tala um að þeir væru fullir af lofti og montnari en aðrir.

Þessi stimpill hefur fylgt okkur frá þeim tíma sem er hið besta mál enda eigum við að standa undir því að vera fremstir meðal jafningja. Ég legg áherslu á að við höldum þessum eiginleika í okkur áfram, það er að skapa og hafa áhrif á allt það sem getur bætt búsetuskilyrði í Þingeyjarsýslum og fjölgað þar með fólk."

Hver sagði að loftið væri farið úr Þingeyingum? Það væri ekki kreppa ef landinu hefði verið stjórnað frá Húsavík. Eitt sinn spurði Barðstrendingur gamla konu úr Fljótshlíðinni hverjir væru montnari Þingeyingar eða Skagfirðingar. Hún svaraði: "Húnvetningar".



mbl.is Önnur lögmál á landsbyggðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Þetta þótti mér vera góð ræða hjá honum Aðalsteini en eins og þú á ég erfitt með að treysta þessari ríkisstjórn fyllilega en óska henni aftur á móti alls hins besta.

Hilmar Gunnlaugsson, 1.5.2009 kl. 16:00

2 Smámynd: Finnur Bárðarson

Flott færsla og mikið ósköp fer í taugarnar þetta eilífa pluralis kjaftæði, við þetta, við hitt. Hvað á ég að segja, við Barónsstígsbúar höfum alltaf verið.... nei annars, mér verður bumbult ef ég held áfram

Finnur Bárðarson, 1.5.2009 kl. 17:54

3 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður

Í gegnum tíðina hef ég oft dáðst af Aðalsteini. Það er kraftur í honum og hann hefur barist fyrir verkafólkið. Mættu fleiri verkalýðsleiðtogar vinna fyrir verkalýðinn.

Ég þoli ekki þegar Gylfi er í krafti síns embættis að boða ESB trúboð. Hann er í vinnu hjá fullt af fólki sem er örugglega ekki allt ESB sinnar.

Það er ekki ónýtt að vera með smá af þingeysku lofti.

Guð veri með þér og þínum

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 1.5.2009 kl. 17:56

4 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Meiriháttar mynd sem þú ert með efst á bloggsíðunni, ekki síðri en hin. Ert þú svona flinkur ljósmyndari?

Shalom/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 1.5.2009 kl. 17:58

5 identicon

Sælir.

Við göngum í ESB hvort eð er. Það er ekki hægt að vera að ætlast til þess að við fáum einhverja flýti meðferð inn í sambandið. Það er ekki hægt að ætlast til þess. Við verðum að ganga í ESB til að fá aðgang að þeim kostum sem evrópu sambandið hefur upp á að bjóða.

En flottur pistill.

Kv. Valli

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 19:38

6 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Takk öll fyrir innlitið.

Rósa nei ég er ekki svona góður ljósmyndari. Móðir mín er frá Hofsósi og þaðan er móðurmjólkin mín og ég elska góðar myndir af staðnum enda fallegt í Skagafirði og ekki síst á Höfðaströndinni. Gunnar Freyr Steinsson frændi minn tók myndirnar og hann er að fara til Kanada að læra ljósmyndum. Þú getur séð fleiri myndir á vefnum hans: www.mikkivefur.is/gunni

Guðmundur St Ragnarsson, 1.5.2009 kl. 22:57

7 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Kannski á leið til Winnipeg í nágrenni við Nelson Gerrard sem er hjá ykkur á Vestfararsetrinu á sumrin?

Rósa Aðalsteinsdóttir, 2.5.2009 kl. 04:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband