Stríðið verður að halda áfram!

Það er uppgjör í nánd. Norski skógarkötturinn Atlas Bubbason lítur á sig sem óskoraðan einvald og einráð kattasamfélagsins við Ásvallagötu. Það er samt ein stór hindrun í veginum. Stóri svarti fressinn sem býr hinum megin við götuna og gerir sitt ítrasta til að koma í veg fyrir áform Atlasar. Við Atlas höfum ákveðið að þessi svarta "ógn" beri nafnið "The Evil" eða Hið Vonda.

Nokkrar orustur milli þessara stríðsherra hafa átt sér stað í garðinum hjá mér. Óhljóðin sem berast um alla Ásvallagötuna þegar Atlas og The Evil berjast er ekki hægt að lýsa með orðum. Einungis þeir sem reynt hafa að nema þessi óhljóð - og lifað af - geta með naumindum tjáð þau. Orustan felst því ekki einvörðungu í beitingu beittra tanna og klóa, alls ekki. Myndun á þessu skerandi hvæsi sem einungis kattahögnar í vígamóð geta framkvæmt er eitt beittasta vopn í kattaheiminum og þótt víðar væri leitað.

The Evil er mjög leyndardómsfullur köttur. Fyrir utan að vera risastór, svartgljándi og stæltur er hann með illkvittið starandi augnaráð. Stundum birtist hann við hlið manns án þess að maður taki eftir því. Stundum virðist hann vera allsstaðar. Ég er á því að þessi köttur sé ekki af þessum heimi. Albróðir Atlasar, þrasta fjöldamorðinginn, Pepsi P. Bubbson III, er svo hræddur við The Evil að hann hleypur strax inn til sín við það eitt að sjá hann. Yfirleitt sýnir The Evil vald sitt og yfirburði og hleypur glottandi á eftir Pepsi alveg þangað til Pespi er orðinn óhlutur inni hjá sér. Það tekur Pepsi u.þ.b. 15 mínútur að jafna sig andlega eftir svona lífsreynslu, svo hræddur er hann. Atlas Bubbason er öðruvísi. Hann er ekki hræddur við The Evil. Þegar bróðir hans kemur lafmóður inn til sín eftir að hafa flúið The Evil röltir Atlas sjálfur rólega út til að mæta óvininum. Æðruleysi Atlasar við þessar erfiðu aðstæður er aðdáunarvert. En eru það mistök að ganga til hólms við The Evil?

Atlas Bubbason vann 1. verðlaun og aðalverðlaun á sýningu hjá Kattaræktarfélagi Íslands, Kynjaköttum vorið 2005, þá kettlingur. Fyrir það fékk hann m.a. risastóran bikar. Frá þeim tíma hefur hann talið sig aðalborinn kött. Á góðvirðisdögum eftir að hafa borðað nægju sína af IAMS gæðafóðri leggur hann sig gjarna eftir matinn á stéttina fyrir framan húsið okkar og horfir stoltur yfir ríki sitt. Ég er svolítið uggandi um að þetta gríðarlega sjálfstraust (mont) Atlasar geti orðið honum að fjörtjóni.

Það er mitt mat, eftir að hafa sjálfur horft framan í ógnandi augnaráð The Evil - og ekki staðið á sama - að áform Atlasar um að stjórna einn kattasamfélaginu við Ásvallagötuna, geti verið í hættu.

Uppgjör er óhjákvæmilegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flower

Úff, svona skerandi hvæs gæti verið af öðrum heimi. Annars skemmtileg frásögn af óðalsdeilum.

Flower, 13.6.2009 kl. 11:49

2 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Það er rétt Flower. Þessi hljóð eru yfirnáttúruleg.

Guðmundur St Ragnarsson, 13.6.2009 kl. 11:59

3 Smámynd: Vilma Kristín

Gott og gaman að sjá að þeir bræður er enn í fullu fjöri! Ég hef fulla trú á Atlas í yfirvofandi uppgjöri, það er engin tilviljun að hann ber þetta flotta nafn (á meðan skræfan bróðir hans er nefndur eftir gosdrykk...). Æðruleysi hans mun örugglega koma honum langt !

Vilma Kristín , 13.6.2009 kl. 16:31

4 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Sammála Vilma. Þeir bera svo sannarlega nafn með rentu :)

Guðmundur St Ragnarsson, 13.6.2009 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband