Fórnargjöf til hins mikla "guðs"

Í morgun þegar ég vaknaði og fór á fætur sá ég að mér hafði verið færð fórnargjöf. Um er að ræða áttundu fórnargjöfina í sumar.

Ég á tvo norska skógarketti og annar þeirra Pepsi P Bubbason III færir mér reglulega fórnargjafir til að milda skap mitt. Oftast er tilgangurinn sá að "guðinn" færi honum IAMS kattafóður í stað Whiskas sem hann fyrirlítur.

Þetta væri gott og blessað nema fórnargjafirnar til "guðsins" eru afhöfðaðir Skógarþrestir eða Starrar sem komið er fyrir á blárri mottu á gólfi baðherbergisins. Sá staður virðist því vera nokkurs konar allra helgasti staður; móttökustaður fórnargjafanna. Á veturna þegar ekki næst í fugla telur Pepsi P Bubbason III að betra sé að fórna einhverju en öngvu. Þá finnur hann ánamaðka í rigningarveðrum og leggur þá stoltur á baðherbergisgólfið og bíður eftir velþóknun og blessun guðsins (og líklega betra kattafóðri). Óðum dregur nú úr fuglasöng við Ásvallagötuna og er "guðinn" orðinn örvæntingarfullur og vonar í lengstu lög að nágrannarnir komist ekki að því að hann eigi orsakavaldinn að þessari þrúgandi þögn fugla í nágrenninu.

"Guðinn" á erfitt með að líta á afhöfðaða fugla með velþókun enda dýravinur allra dýra í skóginum.

"Guðinn" vill frekar maðka í fórnargjöf heldur en fugla.

"Guðinn" ætlar að bæta við AUKA bjöllum á hálsólina á Pepsi P Bubbasyni III.

(þetta blogg var í boði IAMS kattafóðursins sem fæst í Dýralandi og öllum betri gæludýrabúðum).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott saga hjá þér Muggi. Meiriháttar. Eigðu góðan og ljúfan dag og njóttu hans vel. Þetta er flott blogg hjá þér.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 12:53

2 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Takk kærlega og sömuleiðis Valli Matti.

Guðmundur St Ragnarsson, 31.5.2009 kl. 12:55

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

 

Axel Jóhann Hallgrímsson, 31.5.2009 kl. 14:03

4 Smámynd: Finnur Bárðarson

ég myndi rifna af stolti ef Nói færði mér slíkar fórnargjafir, en hann er inniköttur, hræddur við randflugur og ræður varla við mýflugu.

Finnur Bárðarson, 31.5.2009 kl. 18:26

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Svona sögur skilja allir góðir Guðir, sem að eru í eigu katta.

Steingrímur Helgason, 1.6.2009 kl. 00:10

6 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Þú skilur þetta greinilega Steingrímur :)

Guðmundur St Ragnarsson, 1.6.2009 kl. 01:12

7 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Skógarköttur sem bjó með mér átti það til að færa mér rjúpur.  Hann var það hugulsamur (að eigin mati) að hann lét mér eftir drápið.  Það er ekki gaman að elta flögrandi rjúpur um heimilið.

Axel Þór Kolbeinsson, 1.6.2009 kl. 14:44

8 identicon

Stórskemtileg saga úr Dýraríkinu, kv að Norðan Alex 

ABG (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 14:59

9 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður

Það verður að setja fleiri bjöllur á kisa. Ég væri nú ekki ánægð með svona fórnargjafir. Gott samt að hann er ekki að færa þér lifandi mýs.

Búin að vera í borg Óttans síðan 22. maí sl. og kom heim á laugardagskvöldið.

Vertu Guði falinn

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 1.6.2009 kl. 23:00

10 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Takk fyrir innlitið öll.

Framhald: Það er greinilegt að Pepsi P Bubbason III les bloggið mitt. Hann er allur að eflast í slátruninni. Fjórar fuglasálir fóru í gær og ein í dag.

Einn örvæntingarfullur.

Guðmundur St Ragnarsson, 2.6.2009 kl. 02:02

11 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Þú verður að setja fleiri bjöllur á Pepsi P. Bubbason

Rósa Aðalsteinsdóttir, 2.6.2009 kl. 22:36

12 Smámynd: Matthildur Jóhannsdóttir

Miss er orðin 3 ára og hefur aldrei fært mér neinar gjafir. En svo fékk ég tvö börn í fóstur. Þá komst ég að því að hún hefði mjög sterkar skoðanir á hvað gott væri fyrir börninn að læra. Líklega álitið að ég væri ekki að kenna þeim neitt að viti og fór að koma með fugla og leggja við fætur þeirra, og var mjög sýnilega að kenna þeim veiðar. Þá dró ég framm dósaupptakarann fyrir framan kisu og kendi börnunnum að opna kattamat og setja í dallinn henar.

Eftir það hefur hún ekki neitt skipt sér af uppeldinu.

Því legg ég til að þið skreppið saman á Rjúpu í haust.  

Húnversk að hálfu (Smyrlaberg, Þröm, Grænuhlíð) kveðja. M

Matthildur Jóhannsdóttir, 5.6.2009 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband