Samsæri gegn Gerrard

Hver getur haldið því fram að íþróttahetjan, foringinn og öðlingurinn Gerrard hafi meitt annan mann? Ég held að þessar fáránlegu ásakanir séu runnar undan rifjum Sir Alex Ferguson í sálfræðistríði sínu við Benítes. Auðvelt er að ímynda sér að Sir Alex hafi fengið plötusnúðinn á veitingastaðnum til að ögra Gerrard og vinir Gerrard hafi látið hendur skipta. Markmiðið? Jú að reyna að taka besta leikmann heims úr leik til að hjálpa United á lokasprettinum um titilinn. Ég hef reyndar fengið þetta staðfest frá innanbúðarmanni hjá United sem ekki vill láta nafns síns getið og sem ég má ekki láta trúnaðargögn af hendi og ber við bankaleynd.

Gerrard myndi sjálfur aldrei gera sálu mein. Ég legg til að hann verði aðlaður enda á hann það skilið. Sir Steven Gerrard hljómar vel!


mbl.is Gerrard lýsir sig saklausan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vammlaus vinnuhestur

Nú tíðkast þau hin breiðu spjótin. Daglega rignir frábærum fréttum yfir okkur Púllara. Dirk Kuyt (sagt Hjuut) hefur fylgt fordæmi fyrirliðans Gerrard og skrifað undir nýjan samning. Ég var lengi að venjast Hjuut enda gekk honum lengi vel afar illa að skora en til þess var hann ráðinn. Hann hefur alla tíð verið frábær vinnuhestur og öðrum til fyrirmynar varðandi baráttu á vellinum, bæði varnar- og sóknarmegin. Nú bregður svo við að Hjuut er líka farinn að skora stöku sinnum sem skemmir ekki.


mbl.is Kuyt líka lengur hjá Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líklega besti leikmaðurinn í heimi í dag

Flott frétt fyrir alla Púllara. Til hamingju bræður og systur og gott á ykkur hinir! Steven okkar Gerrard verður áfram hjá Liverpool. Hann er sá besti í heimi (já svona með Messi).
mbl.is Gerrard framlengir hjá Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV í ruglinu. Yes, no, yes, no!

Mörg undanfarin ár hef ég, eins og margir Íslendingar, haft af því ánægju og einnig nokkuð gagn, að hlusta á spurningakeppni fjölmiðlanna á RÚV. Það er farið að tilheyra páskahátíðinni. En svo dró ský fyrir sólu. Stjórnendur RÚV lýstu því yfir að af sparnaðarástæðum yrði keppnin lögð niður. Kom það m.a. fram í fjölmiðlum fyrir skömmu. Já af sparnaðarástæðum! Ef Páll nokkur Magnússon myndi lækka laun sín um 10% í 3-4 mánuði er líklega búið að borga upp allan kostnað við þáttagerð Ævars snillings Jósefssonar og líklega gott betur. Það gerir Páll ekki.

Fréttin um uppgjöf RÚV á spurningakeppninni og Ævari hafði ekki fyrr farið í loftið en BYLGJAN greip tækifærið fegins hendi og ætlar að halda keppnina með pompi og prakt um páskana með spyrlinum Loga Bergmann. Skiljanlega því þessi keppni er bæði vinsæl hjá íslenskum almúga og skemmtileg og ákvörðun RÚV framandlega heimskuleg. Með fullri virðingu fyrir Loga Bergmann þá er Ævar orðinn óaðskiljanlegur hluti þessarar keppni og Bylgjumenn hefðu betur splæst í að ráða hann til sín. Það gerðu þeir ekki. Stór tæknileg mistök!

VEGNA ÞESS að þegar Sigrún Stefánsdóttir fréttir svo að samkeppnisaðilinn BYLGJAN hafi tekið keppnina upp á sína arma þá kom annað hljóð í strokkinn. Nú á að halda keppnina í kringum hvítasunnu. Sem sagt ekki hafa hana um páskana en aðeins seinna. Útkoman er enginn sparnaður heldur aukin útgjöld hjá Dagskrárdeild RÚV við að segja eins og Vicky Pollard í Little Britain "yes, but not, but yes, but no, but...". En gangi þér vel Logi Bergmann og takk BYLGJA fyrir að taka við keflinu. Ég hlakka til að hlusta (á tvær fjölmiðlakeppnir á sama árinu).

Til hamingju með skynsamlega stefnumörkun í dagskrárgerð RÚV-arar!


mbl.is Spurningakeppni fjölmiðla um hvítasunnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innan við milljón í bætur fyrir sálarmorð

Ég sá myndina um Breiðavíkurdrengina í gær. Nú birtast fréttir þess efnis að ekki gangi saman með Breiðavikursamtökunum og yfirvöldum um bótagreiðslur þeim eða afkomendur þeirra til handa. Ef þessar tölur eru réttar sem ríkið hyggst bjóða (virðist vera "take it - or leave it" dæmi) þá eru bæturnar innan við milljón á einstakling sem þarna dvaldi.

Þótt menn hafi dvalið þarna mislengi eru þetta smánarlegar bætur og til skammar fyrir yfirvöld. Gleymum því ekki að í mörgum tilfellum hefur lífi þessara manna verið rústað. Eyðilagt af heimili sem rekið var að ríkinu. Það er mjög brýnt að ná sátt við Breiðavíkursamtökin um málið því þetta mál er dökkur blettur á íslensku samfélagi. Við eigum að hjálpa þessum drengjum að ljúka málinu að þessu leytinu en málinu líkur kannski aldrei í sál og sinni þeirra sjálfra. Því miður.


mbl.is Engin sátt í Breiðavíkurmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu þingmenn bjarga Íslandi úr kreppunni?

Ég held ekki, sbr. þessi frétt. Þingmenn syngja (ok bara einn þingmaður) og rífast um allt og ekkert. Þeir eyða tímanum í afgreiðslu lagafrumvarpa sem allt eins mega bíða næsta þings. Stjórnarþingmenn einbeita sér að stjórnlagaþingi en ekki að heimilum landsins eða endurreisn atvinnulífsins. Greiðslujöfnunarfrumvarpið breytir þar litlu.

Á meðan bíður hin þolinmóða íslenska þjóð ennþá eftir úrræðum. Þau bara koma ekki.


mbl.is „Hættið þessu helvítis væli"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er þessi endi......................Gylfi?

Viðskiptaráðherra segist sjá endann á hrunsferli Íslands sem hófst í október 2008. Hann segir stjórnvöld hafa nokkuð skýra mynd af því sem þarf að gera til að hér verði heilbrigt fjármálakerfi. Hvað um heilbrigt atvinnu- og heimilislíf?

Ég dreg í efa að ráðherrann tali hér af hreinskilni. Þau fyrirtæki sem hafa verið "tæknilega" gjaldþrota um margra mánaða skeið eru að týna tölunni, eitt af öðru. Gróin fyrirtæki sem hafa verið tengd byggingariðnaðinum með einum eða öðrum hætti, eru ýmist farin á hausinn eða eru á leiðinni þangað. Gott dæmi um það er Egill Árnason hf. Fasteignasölur hafa farið á hausinn og fasteignasalar lepja dauðann úr skel. Byggingariðnaðurinn er lamaður og byggingarvöruverslanir berjast í bökkum. Velta í verslun dregst eðlilega saman í kreppu. Laugavegurinn er ekki svipur hjá sjón. Og ég er ekki byrjaður að tala um smáfyrirtækin í landinu og heimilin þar sem úrræðið "Greiðsluaðlögun" mun ekki bjarga nema hluta af þeim verst stöddu.

Vonandi sér fyrir endann á hruninu Hr. Ráðherra en því miður er ekki margt sem bendir til þess.

Hitt er svo annað mál. Hvar eru foringjar þessa lands að blása bjartsýni, kjark og þor í landann? Ekki eru þeir í ríkisstjórninni eða stjórnarandstöðu, það eitt er víst!


mbl.is Sér fyrir endann á hrunsferli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó, Reykjavík, borg hinna rauðu ljósa...

Mér er fyrirmunað að skilja hvað verkfræðingar í Umferðarljósadeild Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar eru að gera i vinnunni. Hvort sem ekið er á löglegum eða ólöglegum hraða (ég myndi neita fyrir rétti að ég keyrði of hratt) lendir maður alltaf á rauðu ljósi. Ok kannski ekki alltaf en næstum því alltaf. Kannski er ég í ruglinu enda sveitamaður og ekki alinn upp við umferðarljós. Kannski er þetta allt misskilningur í mér? En kannski ekki?

Ég keyri daglega í vinnuna úr hinum fallega Vesturbæ til Kópavogs þar sem gott er að búa. Á leiðinni þangað keyri ég af Miklubraut og austur á Bústaðaveg. Við fyrstu ljósin þar stöðvast yfirleitt margir bílar og mun fleiri en keyra af Snorrabrautinni og áfram Bústaðarveg. Samt er það þannig við næstum umferðarljós í ca 200-300 m fjarlægð við Slökkvistöðina að þeir sem koma af Miklubraut lenda nánast alltaf á rauðu ljósi. Það er afar pirrandi. Tíu, tólf bílar bíða því í ca hálfa mínútu en einn eða tveir keyra yfir gatnamótin hinu megin frá. Skynsamlegt?

Á tímum kreppu og olíusparnaðar. Elsku verkfræðingar í Umferðarljósadeild Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar. Getið þið lagað þetta þannig að þar sem mesta umferðin er - hún fái mest og best BRAUTARgengi hjá ykkur? Að Miklubraut, Sæbraut o.fl. stofnæðar séu með umferðarljós stillt til þæginda þannig að umferðin líði fallega áfram á grænu ljósi. Þeim pening er vel varið að láta mestu umferðina komast sem auðveldast á milli staða í stað þess að menga umhverfið við hver einustu umferðarljós.

Ég hata umferðarljós!


Hvað er að gerast í Hólminum?

Öðruvísi mér áður brá. Snæflell er með hæsta og líklega eitt kröftugasta lið landins, a.m.k. undir körfunni. Menn sem eru hoknir af reynslu. Ég hélt að Hólmara þyrsti í titilinn en mér hefur sýnst Grindvíkinga langa miklu meir í úrslitin gegn mínum mönnum í K.R. Sóknarfráköstunum fer snar-fækkandi.

Eru þeir rauðhvítu að linast?


mbl.is Að duga eða drepast fyrir Snæfellinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Welcome to Iceland

Afar ánæguleg tíðindi og löngu, löngu tímabær. Það er vonandi að Eva Joly og hennar fólk verði að góðu gagni við að upplýsa hlutina. Íslensk þjóð þarf á því að halda.

Vertu velkomin til Íslands, frú Joly. Takk fyrir framkvæðið og dugnaðinn Hr. Helgason, að fá hana hingað til lands því ekki höfðu stjórnvöld vit á því.


mbl.is Joly sérstakur ráðgjafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband